Hætt var við að birta kafla sem þekktur loftslagsvísindamaður hafði skrifað fyrir bók Newts Gingrichs, eins frambjóðendanna í forkosningum repúblikana fyrir forsetakosningarnar, að því er virðist vegna þrýstings frá íhaldssömum armi flokksins sem neitar að viðurkenna að menn beri ábyrgð á hlýnun jarðar.
Loftslagsvísindamaðurinn Kathrine Hayhoe við Tækniháskólann í Texas var fengin til þess að skrifa kafla í bók Gingrichs um umhverfismál sem á að koma út árið 2013. Beindist kaflinn að efasemdamönnum um hlýnun jarðar og þeim sem óttast að það verði of dýrt að takast á við hana.
Hayhoe segir að ákvörðunin um að sleppa kaflanum úr bókinni hafi komið sér algerlega á óvart. Hún hafi skilað kaflanum af sér og engar athugasemdir hafi verið gerðar við hann. Nokkrum dögum síðar hafi fréttamaður hringt í hana til að spyrja hvers vegna kaflanum hafi verið kastað í ruslið.
Gingrich ákvað að losa sig við kaflann úr bókinni aðeins örfáum dögum fyrir fyrsta forval repúblikana sem fram fór í Iowa eftir að íhaldssami útvarpsmaðurinn Rush Limbaugh komst á snoðir um að Hayhoe væri viðriðin bókina.
Þegar einn hlustenda Limbaughs spurði svo Gingrich um aðild Hayhoe að bókinni á kosningafundi greip Gingrich inn í og sagði að kaflinn hafi verið „drepinn“.
„Mér finnst mjög dapurlegt hvernig fólk er beitt þrýstingi. Ég harma það afar mikið hvað þetta málefni hefur verið gert umdeilt og tengt pólitík. Það eiga sér nú stað sífellt vafasamari tilraunir til þess að vekja deilur um vísindin þó að vísindin séu staðreynd eins og að himinninn er blár, grasið grænt og hitastigið á reikistjörnunni okkar er að hækka,“ segir Hayhoe við breska blaðið The Guardian um málið.