Búið er að velja kviðdóm fyrir herréttarhöld sem haldin verða yfir síðasta bandaríska landgönguliðanum sem ákærður er fyrir morð á óbreyttum borgurum í Írak árið 2005. Búist er við að réttarhöldin hefjist í næstu viku. Maðurinn er einn nokkurra hermanna sem felldu 24 óbreytta borgara í bænum Haditha.
Liðþjálfinn Frank Wuterich lýsti á fimmtudag yfir sakleysi sínu en hann er ákærður fyrir níu manndráp og önnur brot eins og vanrækslu í starfi og líkamsárás fyrir þátt hans í morðinu á fólkinu hinn 19. nóvember árið 2005. Konur og börn voru á meðal fólksins sem hermennirnir myrtu.
Verði Wuterich sakfelldur fyrir alla ákæruliðina gæti hann átt yfir höfði sér meira en 150 ára fangelsisvist. Lögfræðingur hans er sannfærður um að hann fái uppreist æru.
„Við erum vissir um að sannleikurinn um Haditha muni koma fram við réttarhöldin og Wuterich verði sýknaður af öllum sökum,“ segir lögfræðingurinn Neal Puckett við AFP-fréttaveituna.
Wuterich var foringi sveitar sem hann sendi inn í þorp til þess að leita að uppreisnarmönnum eftir að vegsprengja hafði fellt landgönguliða og sært tvo aðra bandaríska hermenn.
Nítján voru myrtir á heimilum sínum auk fimm manna sem komu að vettvangi á bíl. Er þetta eitt umtalaðasta sakamálið sem bandaríski herinn hefur verið viðriðinn í stríðinu í Írak sem stóð í níu ár.
Landgönguliðanir héldu því fram að fimmtán Írakar hefðu látist í sprengingunni sem grandaði bandarísku hermönnunum. Rannsókn tímaritsins Time leiddi hins vegar í ljós að flestir hinna látnu hafi verið drepnir þegar landgönguliðarnir réðust inn í þrjú hús nærri vettvangi.
Lögfræðingar þeirra héldu því fram að uppreisnarmenn hefðu falið sig á bak við hús óbreyttra borgara og skotið á landgönguliðana. Þá hafi skotbardagi hafist. Saksóknarar hersins segja hins vegar að engir uppreisnarmenn hafi verið á staðnum og landgönguliðarnir hafi hafið þriggja klukkustunda langan berserksgang til þess að hefna fyrir félaga sína.
Á meðal hinna föllnu voru tíu konur og börn sem voru skotin á stuttu færi. Hinir landgönguliðarnir sjö sem ákærðir voru hafa allir verið sýknaðir og hefur málið valdið mikilli reiði í Írak.