Fimm konur í Belgíu hafa látið fjarlægja sílíkonpúða frá franska fyrirtækinu PIP úr brjóstum sínum síðan í byrjun desember. Eins og mikið hefur verið fjallað um undanfarna daga hafa rannsóknir leitt í ljós að brjóstafyllingar frá PIP geta skaðað heilsu kvenna.
Púðarnir rifnuðu hjá fjórum kvennanna en sú fimmta lét fjarlægja fyllingarnar af ótta við að þær myndu valda sér skaða.
23. desember sl. ráðlögðu belgísk stjórnvöld konum með sílíkonpúða frá PIP að fara í læknisskoðun og láta fjarlægja púðana fyndust einhver merki um að þeir væru byrjaðir að leka.
Nú þegar hafa hundrað konur þar í landi kvartað yfir brjóstafyllingunum en talið er að um 300 þúsund konur í 65 löndum séu með sílíkonpúða frá PIP. Fyllingarnar voru bannaðar í Frakklandi árið 2010 þegar í ljós kom að sílíkonefnið uppfyllti ekki nauðsynlegar kröfur um notkun í slíkar fyllingar, en það var framleitt til notkunar í dýnum.
Þýsk og tékknesk yfirvöld ráðlögðu á föstudaginn konum með fyllingar frá PIP að láta fjarlægja þær.