Frelsuðu gísla úr haldi ræningja

Danska herskipið Absalon.
Danska herskipið Absalon.

Danska herskipið Absalon skaut viðvörunarskotum og skotum til að vekja ótta að móðurskipi sjóræningja úti fyrir strönd Sómalíu í gær áður en þeir gáfust upp. Danirnir leystu 14 gísla úr haldi sjóræningjanna.

Um borð í sjóræningjaskipinu voru 25 sjóræningjar að sögn fréttavefjar JyllandsPosten og voru þeir með 14 íranska og pakistanska sjómenn í haldi. Fangarnir urðu mjög glaðir við að losna úr prísund og harðræði sjóræningjanna og una sér vel um borð í danska herskipinu.

Carsten Fjord Larsen, skipherra Absalons, greindi frá þessu. Hann sagði að fangar sjóræningjanna hefðu verið teknir um borð með krana. „Það var mikill léttir fyrir þá að vera aftur frjálsir, geta farið um að vild og hringt til ættingja sinna. Einnig að fá að fara í bað, en það höfðu þeir ekki fengið í tvo mánuði,“ sagði Larsen skipherra.

Sjómennirnir höfðu farið frá Íran fyrir þremur mánuðum og lent í klóm sómölsku sjóræningjanna fyrir tveimur mánuðum.

Gíslar sjóræningjanna voru búnir að fara í læknisskoðun um borð í Absalon. Skipherrann sagði ljóst að þeir hefðu búið við mikið harðræði og lífið sem gíslar ekki verið neinn dans á rósum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert