David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur hótað því að leggja fram frumvarp síðar á árinu til þess að koma böndum á ofurgreiðslur til stjórnenda. Hann segir breska hluthafa hafa verið hlunnfarna.
Fréttavefur Daily Telegraph segir að breski forsætisráðherrann hafi sagt að „há verðlaun“ fyrir mistök í rekstri stórfyrirtækja hafi gert almenning sjóðandi reiðan. Breska ríkisstjórnin er að undirbúa nýtt regluverk sem mun þvinga fyrirtæki til að veita sundurliðaðar upplýsingar um greiðslur til yfirmanna.
Hluthafar munu fá lögbundið neitunarvald um slíka ofurlaunasamninga. Almennir starfsmenn munu líka fá sæti í launanefndum sem þurfa að samþykkja samninga um heildarkjör æðstu stjórnenda.
Þá sagði Cameron það vera til umræðu að setja þak á greiðslur til æðstu yfirmanna sem taki mið af meðallaunum í fyrirtækinu, en hann sagði ákveðin vandamál fylgja svo róttækri breytingu.
Þetta kom fram í viðtali Camerons við Andrew Marr í BBC í dag. Hann sagði m.a.: „Mér finnst það vera rangt þegar launin hækka og hækka og þegar þau eru ekki í samræmi við velgengni fyrirtækjanna,“ sagði Cameron.