Eldri borgarar oftast á fyllerí

Fleiri Bandaríkjamenn fara reglulega á fyllerí en áður var talið.
Fleiri Bandaríkjamenn fara reglulega á fyllerí en áður var talið. Reuters

Ofdrykkja er algengari í Bandaríkjunum en áður var talið, sérstaklega meðal ungs fólks, en þeir sem fara þó oftast á fyllerí eru eldri borgarar yfir 65 ára aldri. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar.

Samkvæmt henni fer einn af hverjum sex Bandaríkjamönnum, um 17%, á fyllerí, samkvæmt þeirri skilgreiningu að þeir drekki meira en fimm áfenga drykki í einni lotu ef um karlmenn er að ræða, en fjóra ef um konur er að ræða. Það er aukning frá árinu 2010, þegar 15% sögðust fara á fyllerí og hafði það hlutfall haldist svo í yfir 15 ár.

Flestir sem segjast stundum fara á fyllerí eru í aldurshópnum 18-34 ára, en þeir sem gera það oftast eru hins vegar yfir 65 ára aldri, samkvæmt könnuninni. Eldri borgarar sem viðurkenna svo mikla drykkju segjast gera það að jafnaði 5,5 sinnum í mánuði, samanborið við fjögur fyllerí á mánuði hjá yngri drykkjumönnum.

Rannsóknin var gerð af ríkisrekinni stofnun, Center for Disease Control and Prevention. Talsmenn hennar vara við því að ofdrykkja hafi slæm áhrif á almannaheilsu og að hinir eldri setji slæmt fordæmi fyrir unga fólkið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert