Búa sig undir vígbúnaðarkapphlaup

Kínaher býr nú yfir eldflaugum sem geta meðal annars varist …
Kínaher býr nú yfir eldflaugum sem geta meðal annars varist bandarískum flugmóðurskipum. Reuters

Fyrirséð er að Kínverjar efli sjóher sinn á næstu áratugum og mun uppbyggingin kalla á viðbrögð af hálfu Bandaríkjahers. Þetta er mat taívansks sérfræðings sem mbl.is ræddi við í Taipai, höfuðborg Taívans, í dag.

Mbl.is fylgdist með málþingi sem Taívansstjórn efndi til í Taipai í dag vegna forsetakosninganna á laugardag.

Meðal pallborðsmanna var Chun-shen J. Yen, sérfræðingur í alþjóðamálum við taívönsku rannsóknarstofnunina Institute of International Relations, en hún á í samstarfi við háskólann National Chengchi University í Taívan, svo heiti hans sé endursagt úr ensku. Kemur fram á vef stofnunarinnar að hún sé helsta rannsóknarstofnun Taívans í alþjóðamálum.

Áður en lengra er haldið skal þess getið að í dag fylgdist mbl.is einnig með blaðamannafundi forsetaframbjóðandans James Soongs og verður einnig vikið að varnarmálum í samtali mbl.is við hann síðar í vikunni.

Breiða úr sér í Kyrrahafinu

Yen lýsir uppbyggingu kínverska sjóhersins svo:

„Kínastjórn undirbýr nú það sem kallað er blái sjóherinn en með því er átt við umsvif sjóhersins umfram strandlengjuna,“ segir Yen en sem kunnugt er er hafdýpi túlkað með bláum tónum á kortum. „Þá er ég að tala um Vestur-Kyrrahaf og Suður-Kínahaf.“

- Kínverjar eru með öðrum orðum að verja auknu fé til uppbyggingar sjóhersins sem aftur mun kalla á viðbrögð af hálfu Bandaríkjahers?

„Já. Á vissan hátt má tala um vígbúnaðarkapphlaup í þessu samhengi. Sá hugsunarháttur er ríkjandi í Kína að landið eigi að endurvekja stöðu sína eins og hún var í því sem álitið er glæsileg fortíð þjóðarinnar. Kínverjar halda því jafnan fram að nýlenduveldin í vestri hafi haldið Kína niðri. Samkvæmt þessu viðhorfi er Kína aðeins að endurheimta stöðu sína sem forysturíki. Hernaðaruppbyggingin er því ekki álitin útþenslustefna í Kína. Fjöldi ríkja mun finna fyrir uppbyggingu sjóhersins.“

Útbreitt viðhorf að efla beri herinn

- Þannig að spennan vegna þessarar uppbyggingar á eftir að aukast?

„Já. Ég held líka að það sé útbreitt viðhorf í Kína að samfara auknum efnahagslegum samdrætti beri að styrkja herinn. Nauðsynlegt sé að hernaðarlegur og pólitískur styrkur nái jafnstöðu við stöðu landsins sem rísandi efnahagsveldis.“

Yen víkur því næst að innanlandsmálum en KMT stendur fyrir Þjóðernisflokkinn, sem stofnaður var af kínverska þjóðernisflokknum eftir að kommúnistar undir forystu Maós formanns tóku völdin í Kína árið 1949, og DPP fyrir Lýðveldisflokkinn, sem braust til áhrifa í forsetakosningunum í Taívan aldamótaárið 2000.

„KMT hefur að mínu mati verið hreinskilinn í umræðum um möguleikann á stöðnun í efnahagslífinu í Taívan. Ef hin alþjóðlega efnahagslægð heldur áfram verður Kína að líkindum það ríki sem er best búið til að mæta því. Ef lokast myndi fyrir viðskipti okkar við Kína myndi það hafa enn alvarlegri áhrif. Þjóðernisflokkurinn vill því halda áfram að efla viðskiptin við Kína og hafa þannig efnahagslegan ávinning af vexti kínverska hagkerfisins. Bandaríkjamarkaður er hættur að vaxa og mörg evrópsk hagkerfi standa illa.

Lýðveldisflokkurinn vill hins vegar draga úr viðskiptum Taívans við Kína. En hver er þá valkosturinn? Nefna má Indland og Brasilíu. En þá koma til háir tollar, til dæmis í viðskiptum við Brasilíu. Í viðskiptum okkar við Kínverja er þessu öfugt farið. Hundruð vara bera ekki toll í viðskiptum við Kína. Lýðveldisflokkurinn þarf því að bjóða upp á annan valkost [en Kína], raunhæfan valkost. Um 40% af útflutningi okkar fara til Kína.

Þá kemur það til að margar vörur sem taívönsk fyrirtæki selja á erlendum mörkuðum eru framleiddar í Kína.“

Kínverjar eiga auðveldara með mynda bandamenn

- Þannig að Taívan er að verða háðara Kína?

„Já. Svo er annað, nefnilega diplómatísk samskipti. Þar getum við engan veginn keppt við Kína. Kínverjar hafa meiri efnahagslegan og pólitískan slagkraft. Þeir eiga til dæmis sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og geta beitt sér til að styrkja stöðu einstakra Afríkuríkja, svo dæmi sé tekið. Ríki á borð við Níkaragva og Paragvæ horfa nú til aukins mikilvægis viðskipta við Kínverja.

Þegar Lýðveldisflokkurinn komst til áhrifa [með sigri í forsetakosningunum 2000] áttu 29 ríki í sambandi við Taívan þar sem lýst var yfir gagnkvæmri viðurkenningu á sjálfstæði hvors ríkis. Þegar valdatíma flokksins lauk hafði þessum ríkjum fækkað í 23. Þeim mun halda áfram að fækka. Af þessum 23 eru 5 til 6 ríki sem íhuga nú að endurskoða hið gagnkvæma samband við Taívan. Ég hygg að það myndi valda Taívönum miklu hugarangri að upplifa sig sem einangraða á alþjóðavettvangi,“ segir Chen-shen J. Yen. 

Frá málþinginu í dag. Chen-shen J. Yen er fyrir miðju.
Frá málþinginu í dag. Chen-shen J. Yen er fyrir miðju. Ljósmynd/Baldur Arnarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert