Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, segir Breta vinna hörðum höndum að því með Bandaríkjunum að loka fangelsinu við Guantánamo-flóa á Kúbu. Í dag eru tíu ár liðin frá því fyrstu fangarnir voru fluttir í fangelsið í Guantánamo.
Einn breskur ríkisborgari, Shaker Aamer, er enn í fangelsinu á Kúbu og hafa bresk stjórnvöld þrýst á um að hann verði látinn laus. Meðal annars hefur utanríkisráðherra Bretlands, William Hague, rætt mál hans við Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Þingmaður spurði Cameron út í mál Aamers í fyrirspurnartíma á breska þinginu í dag. Jafnframt hvort forsætisráðherrann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til þess að láta loka fangelsinu í ár.
Cameron kom í svari sínu inn á mál sextán fyrrverandi fanga í Guantánamo sem sökuðu bresk stjórnvöld um að hafa átt þátt í handtöku þeirra og fangelsun. Samkomulag var gert við mennina árið 2010 og unnið er að rannsókn málsins á vegum breskra yfirvalda.
Cameron segir að breska ríkisstjórnin hafi reynt að afla upplýsinga um hvernig stóð á handtöku mannanna sem fluttir voru í fangelsið og hvort bresk yfirvöld hafi átt þar hlut að máli svo tryggt sé að bresk yfirvöld hafi ekki tengst pyntingum þeirra á neinn hátt.
Þrátt fyrir að mannréttindasamtök eins og Amnesty International og Human Rights Watch hafi í fyrstu fagnað rannsókninni neita þau nú að koma nálægt henni þar sem alls ekki sé nægjanlega vel að henni staðið. Til að mynda því að stjórnvöld vilji hafa síðasta orðið um hvað sé birt opinberlega og hvað ekki.
Að minnsta kosti 14 Guantánamo-fangar hafa verið fluttir til Bretlands og tugir annarra til annarra ríkja Evrópu og Bandaríkjanna. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir þegar hann tók við embætti forseta í janúar 2009 að hann myndi vinna að því að fangelsinu yrði lokað innan árs. Því verki er ekki enn lokið.
Í dag er 171 fangi frá tuttugu ólíkum þjóðlöndum í fangelsinu í Guantánamo.