Bandaríski herinn er að rannsaka myndband sem sýnir bandaríska hermenn pissa á lík liðsmanna talibana í Afganistan. Myndbandið var birt á netinu og er verið að rannsaka tilurð þess.
Á myndbandinu má sjá menn liggjandi á jörðinni sem virðast látnir. Einn er útataður í blóði. Þrír hermenn pissa síðan á líkin og einn þeirra segir: „Ég vona að þú eigir góðan dag, félagi.“
Ekki er búið að staðfesta að um sé að ræða skæruliða sem féllu í bardaga í Afganistan, en svo virðist sem bandarískir hermenn hafi tekið myndirnar.
John Kirby, yfirmaður í bandaríska hernum, segir að hernum sé misboðið yfir þessu myndefni. Ekki sé hægt að sætta sig við svona framkomu.
Myndskeiðið hefur vakið mikla athygli og sterk viðbrögð. Talsmaður talibana hefur fordæmt framkomu hermannanna.