Fréttaskýring: Er ríki mormóninn óstöðvandi?

Úrslitin í forkosningum repúblikana í New Hampshire urðu eins og flestar kannanir höfðu spáð: yfirburðasigur Mitts Romneys, fyrrverandi ríkisstjóra í Massachusetts. Ekki er enn hægt að gera því skóna að hann verði forsetaefni flokks síns, hann gæti fengið erfiðari samkeppni. En undanfarin 36 ár hefur engum repúblikana með sigra í New Hampshire og Iowa í farteskinu mistekist að hreppa tilnefninguna.

Kampakátur Romney sagði í sigurræðu sinni að Barack Obama forseti væri þegar búinn að nýta allar hugmyndir sínar. „Núna er hann að verða búinn með allar afsakanirnar. Og í kvöld biðjum við hina ágætu Suður-Karólínubúa að leggjast á sveif með borgurum New Hampshire og gera 2012 að árinu þegar hann var búinn með tímann.“

Því skal haldið hér til haga að Obama hlaut um 80% fylgi í forkosningum demókrata sem fáir sýndu áhuga enda keppinautarnir lítt þekktir. Einn þeirra, sem segist vera „vingjarnlegur fasisti“, hét öllum kjósendum smáhesti að gjöf.

En hvers vegna efast margir enn um að Romney verði forsetaefnið?

Svo gæti farið að keppinautarnir slíðri sverðin til að sameinast um einn er gæti þá fellt Romney. Mikil fundahöld verða um næstu helgi, bæði hjá leiðtogum kirkjurækinna mótmælenda (evangelicals) og íhaldshópum sem óttast að Romney sé í hjarta sínu of langt til vinstri.

Forríkur mormóni

Og auðkýfingurinn Romney á oft erfitt með að samsama sig „venjulegu“ fólki. Einnig setja margir fyrir sig að hann er úr röðum mormóna sem ýmsir kristnir kjósendur líta ekki á sem trúsystkin.

Honum gengur auk þess illa að hrista af sér orðspor tækifærismennskunnar. Oft er nefnt að hann hafi sjálfur komið á fót fyrsta sjúkratryggingakerfinu í Bandaríkjunum, það gerði hann í Massaschusetts. En nú gagnrýnir hann af hörku svipað kerfi sem Obama þvingaði í gegn á Bandaríkjaþingi. Romney og aðrir repúblikanar segja að um argasta sósíalisma sé að ræða hjá demókrötum.

Áður en hann náði kjöri í Massachusetts sem ríkisstjóri studdi Romney þá skoðun að konur ættu sjálfar að ráða því hvort þær færu í fóstureyðingu, seinna snerist honum hugur. Eitt sinn mælti hann með auknum réttindum samkynhneigðra. Nú vill hann að sett sé í stjórnarskrá að hjónaband sé ávallt samband karls og konu. Margir íhaldsmenn tortryggja mann með svona sveigjanlega sannfæringu.

Megnið af forystu Repúblikanaflokksins, flokkseigendafélagið, álítur samt að Romney sé besti kosturinn. Hann er sléttur og felldur fjölskyldumaður sem menn telja öruggt að geymi ekki framhjáhald eða annað verra í einhverjum leyniskápnum. Og nægilega hófsamur til að geta höfðað til kjósenda á miðjunni en baráttan í sjálfum forsetakosningunum snýst undantekningalaust um þann hóp sem oft er óflokksbundinn.

Það kann að virðast kyndugt að á tímum mikillar andúðar á kerfinu og hefðbundum stjórnmálum skuli slíkur maður vera álitinn sigurstranglegur. En beitt er háþróuðum rannsóknum til að kanna hug kjósenda.

Sagður vera „gróðapungur“

Akkilesarhæll Romneys er líklega að hann er vellauðugur kapítalisti á tímum kreppu og atvinnuleysis. Hann stýrði fjármálafyrirtækinu Bain Capital sem m.a. braskaði með fyrirtæki og ýmist endurskipulagði þau eða lagði niður til að geta selt eignir. Fjöldi manna missti vinnuna. En Romney fullyrðir að fjármagninu hafi verið varið í að skapa ný atvinnutækifæri.

Vafalaust er fótur fyrir því en ekki er víst að honum reynist auðvelt að útskýra „skapandi eyðileggingu kapítalismans“ fyrir íbúum S-Karólínu. Þar hafa margir misst vinnuna síðustu árin. Það sem fer mest fyrir brjóstið á almenningi er að menn eins og Romney hafa hagnast ótæpilega á þessum hamförum.

Newt Gingrich, Rick Perry og fleiri keppinautar meðal repúblikana hika ekki við að kalla hann gróðapung, áróðurinn minnir helst á Occupy-hreyfinguna sem úthúðar fjármálafyrirtækjum og græðgisvæðingu. Og heimskapítalismanum. Romney varaði í gær keppinautana við því að sameinast Obama um „stefnu öfundarinnar“ í garð efnaðs fólks, þeirra sem ná árangri. „Við höfum séð örvæntingarfulla repúblikana taka þátt í því með honum að draga frjálst framtak fyrir rétt. Það eru slæm mistök fyrir flokkinn okkar og þjóðina,“ sagði hann.

Mitt Romney
Mitt Romney Reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert