Ferðamálaráðherra Sambíu lét sig falla í teygjustökki í gær í þeim tilgangi að sannfæra fólk um að óhætt sé að stökkva þrátt fyrir að teygjan hafi slitnað þegar ung kona frá Ástralíu stökk á þessum sama stað á nýársdag.
Teygjan slitnaði þegar konan stökk af brúnni við Viktoríufossa. Hún féll í Zambesiá þar sem eitthvað er um krókódíla. Hún lifði hins vegar stökkið af og var bjargað í land en var talsvert lerkuð.
Betur gekk þegar Given Lubinda ferðamálaráðherra stökk í gær. Hann segist sannfærður um að um einstakt tilvik hafi verið að ræða og að teygjustökk sé öruggt sport. Hann hefði ekki stokkið ef hann væri hræddur um líf sitt. Hann hvetur ferðamenn til að upplifa þá spennu sem fylgir teygjustökki.