Prestur játar 280 kynferðisbrot

180.000 Þjóðverjar sögðu sig úr kaþólsku kirkjunni árið 2010 eftir …
180.000 Þjóðverjar sögðu sig úr kaþólsku kirkjunni árið 2010 eftir fjölda hneykslismála tengdum kynferðisofbeldi. Reuters

Kaþólskur prestur í Þýskalandi hefur játað 280 kynferðisbrot gegn þremur drengjum undanfarinn áratug. Presturinn sagðist fyrir rétti ekki hafa talið sig valda neinum skaða með gjörðum sínum.

Presturinn viðurkenndi fyrir rétti í Braunschweig að hafa fyrst brotið gegn 9 ára gömlum syni ekkju úr söfnuði sínum. Eftir að biskupsdæmið bannaði honum að eiga frekari samskipti við drenginn sneri hann sér að tveimur bræðrum, 9 og 13 ára gömlum.

Þúsundir Þjóðverja hafa sagt sig úr kaþólsku kirkjunni þar í landi vegna afhjúpunar fjölda kynferðisbrota af hálfu presta. Árið 2010 sögðu 180.000 manns sig úr kirkjunni, 40% fleiri en árinu áður, að sögn Deutsche Welle.

Presturinn í Braunschweig má eiga von á u.þ.b. 6 ára fangelsisdómi, að sögn BBC. Hann var handtekinn í fyrrasumar eftir að móðir fyrsta fórnarlambs hans hafði samband við yfirvöld. Drengurinn, sem nú er 17 ára, hafði þá nýlega greint móður sinni frá kynferðisofbeldinu sem hann varð fyrir á tveggja ára tímabili þegar hann var 9 til 11 ára gamall.

Brotin gegn drengjunum þremur fóru fram á ýmsum stöðum, m.a. heimili prestsins, á heimili foreldra drengjanna, í ferð í Disneyland í París og fyrir messu í kirkjunni. Presturinn sagði fyrir réttinum að það hefði aldrei hvarflað að sér að hann væri að vinna drengjunum skaða. "Ég skynjaði það aldrei að þetta væri ekki með vilja og samþykki barnanna," sagði hann.

Um 2.800 kynferðislegar myndir af börnum fundust í tölvu prestsins, sumar þeirra af drengjunum þremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert