Ríkisstjórn Brasilíu hefur hafið rannsókn á ásökunum um að skógarhöggsmenn hafi rænt átta ára stúlku frá ættbálki, sem lifað hefur í einangrun frá umheiminum, og brennt hana lifandi. Hermt er að markmiðið með morðinu og fleiri slíkum grimmdarverkum skógarhöggsmanna á svæðinu sé að fæla ættbálkinn frá skógi sem þeir vilji höggva, að sögn breska dagblaðsins The Telegraph.
Á svæðinu er mjög verðmætur viður, auk járngrýtis sem námafyrirtæki hafa ásælst. Ásóknin í þessi verðmæti hefur leitt til átaka þótt sett hafi verið lög til að vernda þá fáu ættbálka, sem lifa enn í skógunum, algerlega einangraðir frá umheiminum.
Talið er að um 450 manns í ættbálkunum hafi verið myrt á árunum 2003 til 2010, að sögn kaþólskrar trúboðshreyfingar sem starfar á svæðinu. Hermt er að um þriðjungur af skóglendi eins ættbálkanna hafi verið eyðilagður.