Skipstjórinn hnepptur í varðhald

Ítalskir saksóknarar hnepptu skipstjóra skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, sem strandaði nálægt ítölsku eyjunni Giglio í gærkvöldi, í varðhald í dag. Skipstjórinn sat klukkutímum saman í yfirheyrslum í dag hjá ítölskum saksóknurum áður en ákvörðun um að hneppa hann í varðhald var tekin.

„Það er ekki rétt að halda því fram að skipið hafi villst af leið,“ sagði Gianni Onorato, forstjóri Costa Crociere, fyrirtækisins sem á skemmtiferðaskipið, við fjölmiðla í bænum Porto Santo Stefano í Ítalíu í dag.

Skipið virðist hafa siglt á rif í nágrenni við Giglio-eyju í gærkvöldi, aðeins örfáum klukkustundum eftir að það lagði af stað úr höfn. Farþegar skipsins sátu að kvöldverði þegar slysið átti sér stað.

Að sögn Onorato er aðeins einn hlutur á hreinu og það er að skipið sigldi á stein. „Á þeim tímapunkti var skipstjórinn í brúnni og hann tók þá ákvörðun að gera skipið öruggt,“ sagði Onorato og bætti við „Hann gaf skipunina um að rýma skipið en því miður valt skipið hratt og skyndilega og því tafðist rýmingin sem og sjósetning björgunarbátanna.“ Onorato tók fram að það hefði verið á þeim tímapunkti sem áhöfnin hafði samband við yfirvöld og óskaði eftir hjálp við að rýma skipið.

Skipið sem lá upprunalega í 20 gráða halla, rann til og liggur nú nánast algjörlega á annarri hliðinni í 80 gráða halla.

„Á meðan við sigldum á eðlilegum siglingarhraða þá rákumst við á kletta,“ sagði Fracesco Schettino, skipstjóri skipsins, við ítalska fjölmiðla í dag og bætti við: „Samkvæmt sjókortinu okkar þá hefði átt að vera nægilega mikið vatn undir okkur.“

Onorato vottaði fórnarlömbum slyssins og aðstandendum þeirra samúð sína í dag og lofaði því að vinna náið með yfirvöldum að rannsókn málsins. Að sögn hans er þetta í fyrsta skipti sem skip í eigu fyrirtækisins lendir í álíka slysi og hann sagði að eigendur fyrirtækisins legðu áherslu á að tryggja yrði að svona lagað gerist aldrei aftur.

Yfirvöld á svæðinu stefna á að senda kafara að skipinu á morgun í þeim tilgangi að leita að hinum svokallaða „svarta kassa“ sem geymir upplýsingar um síðustu ferðir skipsins.

Um það bil 4200 manns voru um borð í skipinu þegar það strandaði en langflestum þeirra hefur verið komið í skjól á Giglio-eyju og í bænum Porto Santo Stefano í Toscana-héraði á Ítalíu. 40 manns er enn saknað.

Skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, strandaði nálægt ítölsku eyjunni Giglio í gærkvöldi
Skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, strandaði nálægt ítölsku eyjunni Giglio í gærkvöldi REUTERS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert