Umhverfisverndarsamtökin Greenpeace koma fyrir dóm á Helsingjaeyri í Danmörku á morgun fyrir að hafa farið ólöglega um borð í fimm fiskibáta frá Gilleleje á Norðursjálandi. Áður höfðu tíu sjómenn frá bænum verið ákærðir fyrir ólöglegar fiskveiðar á friðuðu hafsvæði í Kattegat. Berlingske greinir frá þessu.
Skráðu ferðir bátanna
Upphaf málsins má rekja til þess að í mars árið 2010 laumuðust nokkrir aðgerðasinnar í Greenpeace-samtökunum um borð í fiskibátana fimm og komu þar fyrir GPS-sendum. Yfir sumarið fylgdist fólkið með og skráði ferðir fiskibátanna og kom þá í ljós að þeir sigldu margsinnis inn á friðaða svæðið, sem er eina alfriðaða hafsvæði Danmerkur.
Gögnin sendi Greenpeace til viðeigandi yfirvalda sem ákærðu bæði forsvarsmenn fiskibátanna fimm og fimm til viðbótar. Þegar hafa fjórir þeirra verið dæmdir til hárra sekta auk þess sem afli var gerður upptækur. Þeir hafa áfrýjað til Landsréttarins og bíður lögreglan niðurstöðu hans áður en hinir verða sendir fyrir dóm. Vörnin fór fram á frávísun á grundvelli þess að gagnanna hefði verið aflað ólöglega en því var vísað frá.
Kærðu Greenpeace
Sjómennirnir kærðu hins vegar Greenpeace fyrir að hafa komið GPS-sendunum ólöglega fyrir. Og það er málið sem kemur fyrir réttinn á morgun. Fyrir réttinn koma bæði samtökin og fyrirsvarsmaður þeirra sem bar vitni gegn sjómönnunum frá Gilleleje.
Sjávarlíffræðingurinn Hanne Lyng Winter frá Greenpeace vonast til að dómurinn taki tillit til tilgangsins enda hafi þeim ekki verið aðrar leiðir færar til að stöðva ásókn sjómannanna á friðað hafsvæði. Þorskurinn í Kattegat sé í útrýmingarhættu og friðunin hafi verið örþrifaráð stjórnvalda.