Skipstjórinn gerði mistök

Farþegaskipið Costa Concordia á strandstað við eyjuna Giglio.
Farþegaskipið Costa Concordia á strandstað við eyjuna Giglio. Reuters

Fyrirtækið Costa Crociere, eigandi skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, sem sökk við strönd Ítalíu á föstudag, viðurkenndi í kvöld að skipstjóri skipsins hefði gert sig sekan um dómgreindarskort. Fimm manns að minnsta kosti létu lífið og 14 er enn saknað eftir að skipið strandaði.

„Það virðist sem skipstjórinn hafi gerst sekur um dómgreindarskort sem hafði alvarlegar afleiðingar,“ sagði í yfirlýsingu frá útgerðarfélaginu. Skipstjórinn hafi siglt allt of nálægt eyjunni Giglio. Þar er einnig viðurkennt, að eftir strandið hafi ekki verið fylgt neyðaráætlunum, sem voru í gildi á skipinu. 

Vangaveltur eru um, að skipstjórinn hafi siglt nálægt eyjunni til að skemmta ferðamönnum, sem þar voru. Íbúar á Giglio segjast aldrei hafa séð skipið sigla jafn nálægt svæði þar sem hættuleg rif leynast. 

Fyrirtækið segist vinna með saksóknurum, sem rannsaka slysið. Í gær var skipstjórinn handtekinn en hann er grunaður um manndráp af gáleysi og að yfirgefa skipið áður en allir farþegarnir höfðu verið fluttir frá borði.

Francesco Schettino skipstjóri hóf störf hjá Costa Crociere árið 2002 sem yfirmaður öryggismála. Hann varð síðan skipstjóri árið 2006 eftir að hann hafði aflað sér allra nauðsynlegra réttinda.  

Fram kemur í yfirlýsingu fyrirtækisins, að áhöfn skipsins hafi staðið fyrir björgunaræfingum á hálfsmánaðar fresti og farþegar á skipinu tóku ávallt þátt í slíkri æfingu innan sólarhrings frá því þeir komu um borð. Skipið var hins vegar nýlega lagt af stað í siglingu um Miðjarðarhafið þegar það strandaði. 

Francesco Schettino var handtekinn í gær.
Francesco Schettino var handtekinn í gær. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert