Evran verður til áfram og evrusvæðið mun ná fyrri styrk að nýju, segir Michel Barnier, sem fer með málefni innri markaðar í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Hvetur hann til þess að ekki verði neitt gert í fljótfærni og að ekki megi gleyma því að kreppan snúist ekki um evruna sem gjaldmiðil. „Evran verður til áfram. Á síðustu tíu árum hefur evran sannað gildi sitt sem sannur heimsgjaldmiðill... og þrátt fyrir erfiðleika er hún enn sterk,“ segir Barnier.
Barnier ítrekaði á fundi í Hong Kong í dag að ákvörðun matsfyrirtækisins Standard & Poor's um að lækka lánshæfiseinkunn níu evruríkja á föstudag hefði komið sér á óvart og segir að evruríkin sautján hafi stigið stór skref í að endurvekja traust á svæðinu.
Hann segir kreppuna fyrst og fremst snúast um skort á trausti. Framkvæmdastjórnin og aðrar stofnanir í Evrópu vinni nú að því að skoða málin ofan í kjölinn.