Norskur lögmaður var í dag sýknaður í hæstarétti landsins af því að hafa narrað eldri konu til að selja sér íbúð í Ósló á eina krónu. Hann hafði áður verið dæmdur sekur í héraðsdómi, en áfrýjaði málinu. Hæstiréttur féllst á þau rök mannsins að konan hefði selt honum íbúðina af fúsum og frjálsum vilja fyrir þessa lágu upphæð.
Forsaga málsins er að konan hafði samband við lögmanninn og bað hann um lögfræðilega ráðgjöf í því skyni að koma í veg fyrir að börn hennar erfðu hana.
Börn konunnar báru vitni í málinu gegn lögmanninum og sagði sonurinn að móðir sín hefði ávallt verið þrjósk og viljað fara sínu fram.