Ekki reiðubúnir að viðurkenna Palestínu

Utanríkisráðherra Svía, Carl Bildt.
Utanríkisráðherra Svía, Carl Bildt. Reuters

Sænsk stjórnvöld eru ekki reiðubúin að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki að sögn Carls Bildts, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Ráðherrann lýsti þessu yfir í gær á blaðamannafundi og sagði að núna væri ekki rétti tíminn til þess að gefa nein loforð í þeim efnum.

„Auðvitað myndum við vilja það, en aðalmarkmiðið nú er að koma á viðræðum á milli deiluaðilanna tveggja. Það er það sem við styðjum,“ sagði Bildt samkvæmt fréttavefnum Thelocal.se.

Fram kom að bæði Bildt og Erkki Tuomija, utanríkisráðherra Finnlands, sem einnig var á fundinum, hefðu reynt að fá Palestínumenn og forseta þeirra, Mahmoud Abbas, til þess að sækjast ekki eftir aðild að Sameinuðu þjóðunum.

Abbas hafi hins vegar haft það að engu og umsókn um aðild Palestínu væri nú í vinnslu hjá Öryggisráði SÞ. „Þetta er ekki það sem við ráðlögðum þeim. Hvenær og hvernig þetta verður afgreitt í Öryggisráðinu vitum við ekki,“ sagði Bildt.

Finnski utanríkisráðherrann bætti því við að þeir báðir og í raun allir forystumenn Evrópusambandsins hefðu ráðlagt stjórnvöldum í Palestínu að fara ekki þessa leið. „Við gátum ekki séð að það myndi skila neinu. Og það hefur ekki gert það,“ sagði hann.

Báðir ráðherrarnir lögðu áherslu á nauðsyn þess að fyrst yrði samið um frið áður en kæmi að því að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu. Það væri forsenda fyrir því að það væri hægt.

Bildt sagði ennfremur aðspurður að rétti tíminn til þess að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu væri þegar það væri eitthvert ríki til þess að viðurkenna. „Ég vona að það geti orðið eins fljótt og hægt er,“ sagði hann.

Bildt lagði þó áherslu á að til að af því yrði þyrfti viðkomandi ríki að uppfylla ákveðin grundvallarskilyrði og sú væri ekki raunin enn að hans mati.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert