Efnahagslegar aðhaldsaðgerðir Evrópusambandsins eru eins og þegar reynt var að lækna sjúklinga á miðöldum með því að taka úr þeim blóð í sífellu að mati bandaríska hagfræðingsins og nóbelsverðlaunahafans í hagfræði Josephs Stiglitz. Afleiðingin er að sjúklingurinn deyr nánast örugglega að lokum.
Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Stiglitz hafi varað evrópskar ríkisstjórnir við því að þær hafi í raun undirritað „gagnkvæman sjálfsmorðssamning“ með því að fallast á það að koma umræddum aðhaldsaðgerðum í framkvæmd. Aðgerðirnar væru einfaldlega ekki lausnin.
„Traust verður ekki endurheimt, þvert á móti. Þannig að sú stefna sem Evrópusambandið hefur tekið er því miður, að mínu mati, röng,“ er haft eftir Stiglitz.