„Datt“ ofan í björgunarbátinn

Skipstjórinn á skemmtiferðaskipinu Costa Concordia, Francesco Schettino, segir að ástæðan fyrir því að hann var kominn um borð í björgunarbát á sama tíma og þúsundir farþega og áhöfn skipsins reyndi að komast frá borði sé sú að hann hafi hrasað og dottið ofan í björgunarbátinn.

Skemmtiferðaskipið sigldi á sker skammt frá eyjunni Giglio á Ítalíu á föstudagskvöld og er enn 23 saknað en staðfest hefur verið að ellefu létust. Leit hefur verið hætt tímabundið þar sem óttast er að skipið sé að liðast í tvennt.

Schettino greindi rannsóknarnefnd sjóslysa í borginni Grosseto á Ítalíu frá því að hann hefði hafnað í björgunarbátnum fyrir slysni, samkvæmt frétt breska blaðsins Telegraph.

Að sögn Schettino streymdu farþegarnir upp á þilfar skipsins og tóku björgunarbátana með valdi. Hann hafi ekki verið í björgunarvesti þar sem hann hafi látið farþega fá sitt. „Ég var að reyna að fá fólk til þess að setjast niður í bátana. Skyndilega, þegar skipið hallaðist um 60-70 gráður, hrasaði ég og endaði ofan í einum bátanna. Það er ástæðan fyrir veru minni þar.“

Hann segist hvorki hafa komist lönd né strönd í um það klukkustund áður en báturinn var settur á flot við strönd Giglio-eyju. Auk þess var næstráðandi skipsins, Dimitri Christidis, í sama báti auk þriðja yfirmannsins, samkvæmt frétt  La Repubblica.

Komið hefur í ljós að skipstjóri Costa Concordia virti að vettugi fyrirmæli hafnarstarfsmanns um að fara aftur um borð í skipið til að stjórna björgunaraðgerðum eftir að hafa yfirgefið það áður en farþegar voru fluttir frá borði. Þetta kemur fram í afriti af samtali sem fjölmiðlar á Ítalíu birtu í gær.

Ennfremur kom fram að áhöfn skipsins gafst upp á því að bíða eftir fyrirmælum frá skipstjóranum um að flytja farþegana frá borði og hóf björgunaraðgerðirnar 15 mínútum áður en hann gaf loks fyrirmælin.

Hermt er að skipstjórinn hafi siglt skipinu nær strönd eyjunnar Giglio til að gleðja yfirþjón skipsins sem er frá eyjunni. Á fréttavef Spiegel kemur fram að systir yfirþjónsins skýrði frá því á facebook-síðu sinni skömmu áður en slysið varð að skipið myndi „sigla mjög, mjög nálægt“ eyjunni innan skamms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert