Sagði skipstjóranum að fara um borð

Francesco Schettino, skipstjóri skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, er ekki mjög vinsæll maður á Ítalíu. Hafnarstjórinn í Livorno, Gregorio De Falco, er hins vegar orðinn að þjóðhetju.

Schettino ber ábyrgð á því að skipið strandaði en flest bendir til að hann hafi siglt upp að ströndinni svo að íbúarnir gætu horft á skipið fara framhjá. Síðan beit hann höfuðið af skömminni með því að yfirgefa skipið áður en allir voru farnir frá borði.

„Farðu aftur um borð. Þetta er skipun,“ sagði De Falco í símtali við Schettino. „Það er ég sem stjórna núna. Farðu um borð.“ Schettino hlýddi ekki þessari skipun.

Skipstjórinn talaði í símtalinu um að það væri mikið myrkur, en De Falco spurði Schettino hvað hann vildi gera og hvort hann ætlaði að fara heim til sín.

Schettino sagði í upphafi að hann hefði farið síðastur frá borði, en í gær var haft eftir honum að hann hefði dottið ofan í björgunarbát.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert