Hætta er á að greiðsluþrot Grikklands setji af stað vítahring á evrusvæðinu sem koma mun niður á verst stöddu evruríkjunum. Þetta er mat Martins Wolf, aðstoðarritstjóra Financial Times, sem segir mikla áhættu í því fólgna að óvissa sé um hvort ríki á borð við Spán geti endurfjármagnað skuldir sínar.
Blaðamaðurinn Markus Karlsson hjá franska vefnum France24 ræddi við Wolf um stöðuna á evrusvæðinu í ítarlegu viðtali sem má nálgast hér.
„Ég tel að rangt væri að segja að við værum nálægt lausn á evrukrísunni vegna þess að svo margt þarf að gerast til að trúverðuleiki skapist á því að greitt verði úr henni,“ sagði Wolf meðal annars í viðtalinu. „Ef þetta á að virka mun það taka áratug.“
Fjármálakerfi Vesturlanda mun skreppa saman
Þegar Karlsson spurði Wolf hvort reglugerðarsmiðir í Bretlandi og Evrópu sæki nú að fjármálahverfinu City í Lundúnum vék Wolf að hröðum vexti fjármálageirans í Bretlandi á áratugnum fram að falli Lehman-bankans haustið 2008.
Viðbúið væri að fjármálakerfið myndi skreppa saman á Vesturlöndum enda hefði það vaxið of hratt. Sá samdráttur væri afleiðing markaðslögmála.