Gingrich vildi „opið hjónaband“

Newt Gingrich
Newt Gingrich

Marianne Gingrich, fyrrverandi eiginkona Newt Gingrich, segir í samtali við Washington Post að hann hafi óskað eftir að hjónaband þeirra yrði opið. Hún gagnrýnir hann fyrir hræsni.

Newt Gingrich er þríkvæntur. Hann á því að baki allt annan feril en keppinautur hans Mitt Romney sem hefur alla tíð verið kvæntur sömu konunni og á með henni fimm syni.

Marianne er önnur eiginkona Gingrich en þau voru gift í 18 ár. Hún segir að hann hafi árið 1999 rætt við hana um hvort þau ættu að taka upp „opið samband“. Hún segir að sér hafi brugðið mjög við þessi orð og spurt hvort það væri einhver önnur kona í spilinu. Hann hafi hikað við að svara og þá hafi hún sannfærst um að hann væri kominn í samband við aðra konu. Í ljós kom að hann hafði þá átt í ástarsambandi við aðra konu í 6 ár. Sú kona er eiginkona hans nú.

Marianne segir að hann hafi farið fram á skilnað yfir kvöldverði hjá tengdamóður sinni. Stuttu síðar hafi Gingrich flutt ræðu á ráðstefnu kvenna í Repúblikanaflokknum þar sem hann hafi m.a. talað um fjölskyldugildi.

Marianne Gingrich skýrir frá þessu í viðtali við sjónvarpsþáttinn Nightline, sem ABC-sjónvarpsstöðin sýnir í kvöld en hluti af viðtalinu hefur verið birtur. Er viðtalið talið koma sér afar illa fyrir Gingrich en forkosningar repúblikana fara fram á laugardag í Suður-Karólínu, sem er í Biblíubeltinu svonefnda í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert