Kafarar héldu í dag áfram leit í flaki skemmtiferðaskipsins Costa Concordia sem strandaði við vesturströnd Ítalíu fyrir viku. Upplýsingar komu fram í dag sem benda til þess að áhöfn skipsins hafi reynt að leyna ástandinu um borð fyrir ítölsku strandgæslunni.
Alls hafa ellefu lík fundist í flakinu en 21 er enn saknað. Yfir fjögur þúsund manns voru um borð í skipinu þegar það strandaði.
Veðurútlit á strandstaðnum er slæmt og er spáð þungum sjó í kvöld. Óttast er að þetta geti tafið leit og aðgerðir við að dæla eldsneyti úr tönkum skipsins.
Fréttasjónvarpsstöðin SkyTG24 birti í dag upptöku af samtali starfsmanns ítölsku strandgæslunnar og yfirmanns um borð í skipinu 40 mínútum eftir að skipið strandaði. Þá höfðu skelfingu lostnir farþegar hringt í vini og ættingja í landi og sagt þeim að skipið væri að sökkva.
„Afsakið, er vandamál um borð?" spyr starfsmaður strandgæslunnar. Yfirmaðurinn á skipinu, sem ekki er nafngreindur, svarar: „Það var rafmagnslaust og við erum að kanna aðstæður um borð."
„Hvernig vandamál er þetta? Er þetta rafallinn?" er spurt. „Við erum að skoða aðstæður," svaraði skipverjinn.
Strandgæslan: „Farþegarnir segja að þeim hafi verið skipað að fara í björgunarvesti. Er það rétt?"
Skipverjinn: „Við erum að skoða aðstæður."
Strandgæslan: „Láttu okkur vita hver staðan er."
Skipverjinn: „Staðfest."
Nokkrum mínútum síðar var byrjað að rýma skipið sem var farið að hallast verulega.