Bandaríska alríkislögreglan lokaði í dag vefsíðunni Megaupload.com, sem hefur verið ein stærsta skráaskiptasíða í heimi. Starfsmenn vefsíðunnar hafa verið ákærðir fyrir brot á höfundarréttarlögum.
Að sögn alríkislögreglunnar er þetta eitt umfangsmesta höfundarréttarmál, sem rannsakað hefur verið í Bandaríkjunum. Megaupload var um tíma 13. mest sótta vefsíða í heimi.
Eru sjö stjórnendur vefsíðunnar og tvö fyrirtæki, Megaupload Limited og Vestor Limited, grunuð um að hafa haft yfir 500 milljónir dala af kvikmyndaframleiðendum og öðrum rétthöfum vegna tapaðra tekna.
Stjórnendurnir eiga yfir höfði sér margra áratuga fangelsi fyrir fjársvik, peningaþvætti og brot gegn höfundarrétti.