Rússar eru enn mótfallnir afskiptum alþjóðasamfélagsins af ástandinu í Sýrlandi. Kínverjar eru á sama máli. Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, segir að Rússar og Kínverjar muni standa þétt saman gegn íhlutun annarra þjóða af ástandi mála í Sýrlandi. Þeir fordæmi ennfremur notkun herafla í því skyni að koma skikk á ástandið í landinu.
„Ef einhverjir hyggjast beita hervaldi, en margir fara fram á það við Arabalöndin, þá getum við lítið gert til að koma í veg fyrir það,“ sagði Lavrov í gær. „Ekki síst ef viðkomandi er staðráðinn í því. En það verður að vera á þeirra eigin ábyrgð og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun ekki veita heimild til þess.“
Rússnesk yfirvöld hafa verið meðal helstu stuðningsmanna Assads forseta þá undanfarna tíu mánuði sem mótmæli hafa staðið yfir í Sýrlandi. Sameinuðu þjóðirnar fullyrða að 5000 óbreyttir borgarar hafi látið lífið í mótmælunum.
Enn er barist í borginni Homs, sem hefur verið ein af aðalbækistöðvum mótmælenda.
Íhlutun eftirlitssveita Arababandalagsins í Sýrlandi virðist lítil áhrif hafa haft, en hundruð dauðsfalla í mótmælunum hafa verið tilkynnt í landinu undanfarnar vikur. Eftirlitssveitirnar komu til landsins í desember og var búist við að nærvera þeirra myndi hafa áhrif á ástand mála.