Þeir sem rannsaka strand ítalska skemmtiferðaskipsins Costa Concordia hafa óskað eftir að yfirheyra unga konu frá Moldavíu sem talið er að hafi verið í brú skipsins með skipstjóranum þegar skipið strandaði.
Konan heitir Domnica Cemortan og er 25 ára gömul. Rannsakendur vonast eftir að hún geti varpað ljósi á hvað gerðist þegar skipið strandaði.
Farþegar hafa fullyrt að stuttu fyrir strandið hafi Francesco Schettino skipstjóri borðað með ungri konu og þau hafi drukkið áfengi saman.
Líkleg ástæða strandsins er talin vera að skipstjórinn hafi siglt skipinu nálægt eyjunni Giglio til að íbúar þar gætu skoðað skipið. Hann hefur sjálfur sagt að hann hafi verið of seinn að taka beygju.