Yfirmaður norsku öryggislögreglunnar PST, Janne Kristiansen, tilkynnti í nótt að hún hefði tilkynnt dómsmálaráðherra landsins um uppsögn sína. Ástæða þessa er sögð hugsanlegt brot á þagnarskyldu.
Að sögn vefsíðu norska dagblaðsins Aftenposten beindi þingmaðurinn Akhtar Chaudhry þeirri spurningu til Kristiansen við yfirheyrslu á norska þinginu í gær hvort öryggislögreglan starfaði með með pakistönsku leyniþjónustunni.
Hún sagði svo ekki vera, en bætti við að öryggislögreglan starfaði með leyniþjónustu norska hersins, sem væri með fulltrúa sína starfandi í Pakistan.
Að greina frá slíku opinberlega getur haft víðtækar og alvarlegar afleiðingar.
Dómsmálaráðherrann, Greta Faremo, segir að ekki sé um lögbrot að ræða. „En þetta snýst um hugsanlegt brot á þagnarskyldu. Ég hef ákveðið að samþykkja beiðni Kristiansen um lausn frá embætti,“ sagði Faremo við Aftenposten.
Kristansen mun láta þegar af störfum. Næstráðandi öryggislögreglunnar, Roger Berg, mun taka við starfi hennar tímabundið.
Breytingar á æðstu stjórn PST þykja ekki sérlega heppilegar núna, því að stofnunin fæst við margvísleg verkefni sem tengjast fjöldamorðunum í Útey 22. júlí í fyrra.