Gingrich vann í S-Karólínu

Newt Gingrich vann sannfærandi sigur í prófkjöri Repúblikanaflokksins í Suður-Karólínu. Gingrich fékk 41% atkvæða en helsti keppinautur hans Mitt Romney fékk 27%.

Romney hefur fram að þessu verið með gott forskot á aðra frambjóðendur, en eftir sigur Gingrich í S-Karólínu bendir flest til að baráttan um útnefningu verði löng og hörð.

Frá 1980 hefur sigurvegarinn í S-Karólínu alltaf hlotið útnefningu Repúblikanaflokksins í forsetakosningum.

Fjórir frambjóðendur sækjast enn eftir útnefningu. Rick Santorum fékk 17% atkvæða í prófkjörinu í gær og Ron Paul fékk 13%.

Stuttu eftir að úrslitin lágu fyrir skrifaði Gingrich á Twitter: „Þakka ykkur fyrir kjósendur í S-Karólínu fyrir að hjálpa mér að gefa rothöggið í Flórída.“ Hann vísaði þar til prófkjörsins í Flórída 31. janúar. Hann sagði á fundi með stuðningsmönnum sínum að árangurinn í S-Karólínu sýndi að fólk með réttar hugmyndir gæti sigrað peningana.

Suður-Karólína er sterkt vígi kristilegra íhaldsmanna. Sigur Gingrich í ríkinu sýnir að þessum hópi kjósenda líkar ágætlega við Gingrich þrátt fyrir að hann eigi að baki þrjú hjónabönd og reynt hafi verið í kosningabaráttunni að kasta rýrð á trúverðugleika Gingrich varðandi tal hans og fjölskyldugildi.

Romney hefur gengið illa að fá kristilega íhaldsmenn til að kjósa sig. Þeir treysta honum ekki þó að hann reyni með ýmsum hætti að höfða til þeirra. Ástæðan er sú að hann þykir frjálslyndur í skoðunum. Hann hefur m.a. fyrr á stjórnmálaferlinum gefið til kynna að hann styðji fóstureyðingar og ferill hans sem ríkisstjóri í Massachusetts bendir ekki til þess að hann sé mikið á móti lögum sem Obama forseti beitti sér fyrir í heilbrigðismálum.

Newt Gingrich var ánægður með sigurinn.
Newt Gingrich var ánægður með sigurinn. REUTERS
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert