Borgaryfirvöld í Bonn í Þýskalandi hafa ákveðið að leggja áfram á kynlífsskatt á gleðikonur sem starfa í borginni. Skatturinn var fyrst lagður á í ágúst í fyrra og telja borgaryfirvöld að reynsla af honum sé góð.
Skatturinn virkar með svipuðum hætti og stöðumælagjald sem lagt er á bifreiðar. Skatturinn skilaði á síðasta ári tekjum til borgarinnar sem nema 250 þúsund evrum eða um 40 milljónum króna.
Talsmaður borgarinnar segir að reynslan af skattinum sé góð og hann verði áfram lagður á. Gleðikonur sem starfa á götum úti greiða sex evrur á kvöldi í skatt óháð því hversu mikið er að gera hjá þeim. Þær sem ekki eru með greiðslukvittun á sér geta átt von á sekt.