Evrukrísan Þjóðverjum að kenna

Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, fundaði með frönskum kollega sínum í …
Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, fundaði með frönskum kollega sínum í gær. Reuter

Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, segir efnahagsstefnu Þýskalands undanfarna tvo áratugi eina af ástæðum þess að evrusvæðið stríði nú við mikinn skuldavanda. Er það mat stofnunarinnar að þýskir framleiðendur hafi hagnast á þeirri stefnumörkun þýskra stjórnvalda að halda launum í lágmarki en á kostnað annarra evruríkja.

ILO segir þau vandræði sem evrusvæðið glími við nú vera arf fortíðarinnar en eftir sameiningu Þýskalands 1990, og sérstaklega í stjórnartíð kanslarans Gerhard Schroeder, hafi þýsk stjórnvöld gert allt sem þau gátu til þess að halda launakostnaði niðri, til þess að auka samkeppnishæfni og vinna gegn atvinnuleysi í landinu.

„Bent hefur verið á aukna samkeppnishæfni þýskra fyrirtækja sem undirliggjandi ástæðu þeirra erfiðleika sem steðja að evrusvæðinu,“ segir í skýrslu ILO um horfur í efnahagsmálum 2012.

„Í Evrópu hefur þetta skapað aðstæður fyrir langvarandi efnahagslægð og önnur evruríki sjá sér engar leiðir færar til að bæta samkeppnisstöðu sína nema að fara í enn meiri launalækkanir.“

ILO segir velgengni Þýskalands í efnahagsmálum ekki að þakka lágum launum eða samkeppnisfærni heldur því að helstu útflutningsmarkaðir þess væru í ört vaxandi löndum, t.d. í Asíu.

Yrði endi bundinn á láglaunastefnuna í Þýskalandi myndi það hafa víðtæk jákvæð áhrif í Evrópu og einnig leiða til sanngjarnari launadreifingar meðal Þjóðverja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert