Írska hagstofan segir að húsnæðisverð á fasteignamarkaði lækki hratt. Nýjar tölur sýni fram á að verð fyrir húsnæði í Dublin, höfuðborg Írlands, sé nú 54% lægra en það var þegar fasteignabólan var sem stærst snemma árs 2007.
Verð á íbúðum í fjölbýlishúsum í höfuðborginni hefur lækkað mest, eða um 58%.
Írska hagstofan segir að húsnæðisverð á landsvísu hafi lækkað um 16,7% í desember sl. samanborið við sama tíma árið 2010. Lækkunin nam 15,6% í nóvember.
Ein stærsta fasteignasala landsins, Douglas Newmann Good (DNG), sagði í síðustu viku að ástandið væri mögulega enn verra, en fyrirtækið sagði að húsnæðisverð í Dublin hefði lækkað um tæp 20% í fyrra.
DNG segir að húsnæðisverð í úthverfum Dublin hafi lækkað um 64,7% frá því í september 2006. Tölurnar sem menn horfi á í dag séu svipaðar því sem sást síðast árið 2000.