Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Senegal hvöttu í dag íbúa landsins til þess að mótmæla banni sem stjórnvöld landsins hafa sett gegn mótmælum í landinu. Stjórnarandstöðuleiðtogarnir hvetja þjóðina til þess að taka þátt í virkri andstöðu gegn mótmælabanninu sem stendur yfir fram á næsta mánudag.
Stjórnarandstæðingar segja bannið vera brot gegn sjálfsögðum mannréttindum fólks. „Bann ráðherrans gegn mótmælum er ólögmætt og hefur ekkert gildi,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá helstu leiðtogum stjórnarandstöðunnar.
Ousmane Ngom, innanríkisráðherra Senegal, tilkynnti í gær fimm daga langt bann gegn mótmælum í landinu. Tilgangur bannsins mun vera sá að draga úr ofbeldi í landinu á meðan beðið er úrskurðar stjórnskipunardómstóls landsins um hvort Abdoulaye Wade, forseti Senegals, má bjóða sig fram í embætti í eitt kjörtímabil í viðbót. „Frá 26. til 30. janúar verða öll mótmæli bönnuð í þeim tilgangi að varðveita frið og ró,“ sagði Ngom.