Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að uppreisnarmenn hafi pyntað fólk í fangelsum í Líbíu og að nokkrir einstaklingar hafi látist af völdum pyntinganna.
Samtökin segjast hafa hitt sjúklinga í Trípólí, Misrata og Gheryan sem hafi verið með opin sár á höfði, útlimum og á baki, að því er fram kemur á vef breska útvarpsins.
Talsmaður Amnesty segir að her- og öryggissveitarmenn framkvæmi pyntingarnar, auk uppreisnarhópa sem starfi utan við ramma laganna.
Þá hafa samtökin Læknar án landamæra hætt störfum í Misrata eftir að hafa sinnt 115 sjúklingum sem voru með áverka eftir pyntingar.
Sameinuðu þjóðirnar segjast hafa áhyggjur af því við hvaða aðstæður sjúklingunum er haldið.