Nýir leiðtogar hins svokallaða arabíska vors, leituðust við að sannfæra kollega sína á Vesturlöndum um að lýðræðinu stæði ekki ógn af vaxandi vinsældum íslamskra stjórnmálaflokka, á ráðstefnu Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar í Davos, sem nú stendur yfir.
Þegar mótmæli fóru eins og sinueldur um Miðausturlönd og Norður-Afríku á síðasta ári vonuðu margir á Vesturlöndum að upp væri runnin dögun frjálshyggjunnar á svæðinu. Þess í stað hafa íslamskir stjórnmálaflokkar víða unnið stóra sigra í frjálsum kosningum og vakið ótta um að í stað þeirra einræðisherra sem steypt var af stóli, taki nú við kúgandi klerkaveldi.
„Lýðræði og Íslam stangast ekki á,“ sagði Mohamed Najib Boulif, ráðherra hins íslamska Réttlætis- og þróunarflokks í Marokkó. Sem dæmi um hófsemi flokksins benti hann á að hann hefði verið eini flokkurinn í samsteypustjórninni sem hefði skipað konu í ráðherraembætti.
Utanríkisráðherra Túnis, Rafik Abdessalem, sagði að tiltölulega friðsamleg umskipti yfir í þjóðkjörna stjórn þar sem íslamistar eru við stjórnvölin, benti til þess að framtíðin væri björt.
„Við sýndum fram á það í Túnis að það er mögulegt að vera arabi, múslimi og lýðræðissinni á sama tíma,“ sagði hann. „Í Bandaríkjunum ríkir aðskilnaður milli ríkis og kirkju en trúin er mjög mikið í almennri umræðu og þannig held ég að þetta verði í Miðausturlöndum,“ benti hann einnig á.
Á ráðstefnunni kom einnig fram að mikilvægt væri að efnahagslegar umbætur myndu fylgja í kjölfar lýðræðisumbóta.