Skildi barn sitt eftir til að deyja

mbl.is

Kona búsett í Missouri-ríki í Bandaríkjunum hefur verið afhent löggæsluyfirvöldum í Minnesota-ríki en henni er gefið að sök að hafa árið 2001 skilið nýfætt barn sitt eftir til að deyja í skóglendi.

Kemur þetta fram á fréttavef La Crosse Tribune.

Konan sem heitir Amy Ann Romero er 29 ára gömul og var hún handtekin í bænum Milan í Missouri-ríki í síðustu viku eftir að hafa verið ákærð fyrir morð af fyrstu gráðu.

Í ákærunni kemur m.a. fram að konan, þá búsett í Minnesota-ríki, hafi fætt stúlkubarn 28. apríl 2001 og skömmu eftir fæðinguna hafi hún farið með barnið í skóglendi þar sem hún skildi barnið eftir.

Ekki liggur fyrir af hverju yfirvöld hafa nú 11 árum síðar ákveðið að ákæra konuna en fáar upplýsingar eru gefnar upp um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert