Hætta störfum í Sýrlandi

Frá mótmælum í Sýrlandi.
Frá mótmælum í Sýrlandi. Reuters

Arababandalagið segir að ofbeldisverk hafi færst mjög í aukana í Sýrlandi og þar af leiðandi hefur bandalagið ákveðið hætta að halda úti eftirliti í landinu.

„Við höfum ákveðið að stöðva eftirlit Arababandalagsins í Sýrlandi vegna aukinna ofbeldisverka, en formleg tilkynning mun berast síðar,“ segir embættismaður hjá bandalaginu, sem vildi ekki láta nafns síns getið, í samtali við AFP.

Mohammed Ahmed Mustafa al-Dabi, sem fer fyrir eftirlitsmönnunum, sagði í gær að átök hefðu færst í aukana í vikunni, sérstaklega í borgunum Homs og Hama en einnig í Idlib-héraðinu í norðurhluta landsins.

Hann sagði að ofbeldi fengi menn ekki að samningaborðinu.

Að minnsta kosti 193, meirihlutinn saklausir borgarar, hafi látist í átökum í Sýrlandi frá því á þriðjudag, samkvæmt tölum sem AFP hefur fengið frá embættismönnum og mannréttindasamtökum.

Alls hafa 165 eftirlitsmenn frá Arababandalaginu verið að störfum í Sýrlandi. Þeir komu til landsins 26. desember þegar stjórnvöld í Sýrlandi sögðust samþykkja áætlun sem miðaði að því að stöðva allt ofbeldi, sleppa föngum úr fangelsi og fjarlægja skriðdreka úr hverfum. Einnig sögðust þau samþykkja að leyfa eftirlitsmönnunum og erlendum fjölmiðlum að ferðast um landið án takmarkana.

Sýrlensk stjórnvöld hafa aftur á móti ekki virt þessi skilyrði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka