Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur tilkynnt stuðning sinn við framboð Noicolas Sarkozy til forseta Frakklands. Sarkozy hefur þó ekki gefið formlega upp hvort af framboðinu verði, en hann hefur gengt embætti forseta í eitt kjörtímabil.
Þetta kom fram í ræðu Hermann Gröhe, framkvæmdastjóra bandalags kristilegra demókrata, í kvöld í París. Þar kom einnig fram að Merkel hygðist leggja sín lóð á vogarskálarnar í kosningabaráttu Sarkozy í vor, en forsetakosningarnar í Frakklandi fara fram í apríl og maí á þessu ári. Bandalag kristinna demókrata telur að „Sarkozy sé rétta manneskjan í forsetastólinn og muni halda áfram að vera það í framtíðinni.“
Sarkozy studdi Merkel þegar hún sóttist eftir endurkjöri sem kanslari árið 2009.
Samkvæmt fréttamiðlinum APF kom einnig fram í ræðu Gröhe gagnrýni á andstæðinga kristinna demókrata, Francois Hollande, sem margir telja að muni sigra Sarkozy í forsetakosningunum, en Groehe sagði þá vera óljósa og úrelta.
Evrópskir fjölmiðlar hafa fundið heitið „Merkosy“ yfir Sarkozy og Merkel, sem eru leiðtogar tveggja sterkustu evruríkjanna. Þau hafa átt fjölda funda að undanförnu með það að markmiði að leysa skuldavanda þjóðanna tveggja.