Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, mun tilkynna skattahækkanir á morgun, að því er heimildarmenn AFP-fréttastofunnar herma. Þeir segja að forsetinn muni m.a. greina frá hækkun á virðisaukaskatti sem nemur 1,6 prósentustigum.
Markmiðið er að færa byrðina sem fylgir því að greiða fyrir almannatryggingakerfið frá atvinnurekendum yfir á neytendur. Sósíalistar hafa mótmælt þessum fyrirætlunum harðlega. En mið-hægristjórn Sarkozy vill koma þessum aðgerðum til framkvæmda áður en forsetakosningarnar fara fram í apríl nk., en talið er að Sarkozy muni bíða ósigur í kosningunum.
Heimildarmenn AFP tilgreindu ekki hvort hækkunin ætti aðeins við hæsta virðisaukaskattstigið, sem stendur nú í 19,6%, eða öll.
Virðisaukaskattur á nauðsynjavörur er lægri, eða 7 og 5,5%.