Fundin sek um fjögur morð

Hjón og sonur þeirra voru fundin sek um morð á fjórum konum í fjölskyldu þeirra í Kanada í kvöld. Var hvert þeirra dæmt í 25 ára fangelsi. Þrjár hinna látnu eru dætur hjónanna og sú fjórða var fyrsta eiginkona mannsins.

Hjónin, Mohammad Shafia 58 ára og Tooba Mahommad Yahya 42 ára, eru innflytjendur frá Afganistan. Voru þau ásamt syni sínum, Hamed, 21 árs, dæmd fyrir sæmdarmorð innan fjölskyldunnar árið 2009. Þau munu öll ætla að áfrýja dómnum, að sögn lögmanna þeirra.

Dómarinn í Kingston, Ontario, Robert Maranger, sagði í kvöld er hann kvað upp dóminn að glæpur þeirra væri svívirðilegur og að gögn málsins sýndu það og sönnuðu að þau væru sek.

Lík þeirra Zainab Shafia, 19 ára, Sahar Shafia, 17 ára, Geeti Shafia, 13 ára og Rona Amir Mohammad, 50 ára, fundust í bifreið sem maraði í loku skipaskurðar (e. canal lock) í nágrenni Kingston í júní 2009.

Vitni lýstu því í réttarsalnum að fórnarlömbunum hefði ítrekað verið hótað lífláti og þær búið við stöðugan ótta um líf sitt og limi. Tvær eldri dæturnar áttu unnusta án vitneskju föður síns. Faðir þeirra var afar ósáttur við frjálslegt líferni dætra sinna og hvernig þær klæddu sig. Þær höfðu margoft kvartað við skólayfirvöld yfir ofbeldi sem þær voru beittar heima við.

Shafia flutti með fjölskyldu sína til Kanada árið 2007 en áður höfðu þau búið í Ástralíu, Pakistan og Dubai í um fimmtán ár.

Mohammad Shafia og sonur hansHamed Shafia
Mohammad Shafia og sonur hansHamed Shafia Reuters
Tooba Mohammad Yahya
Tooba Mohammad Yahya Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert