Segir tregðu evruríkja vera hneyksli

Jacques Delors. Mynd úr safni.
Jacques Delors. Mynd úr safni. Reuters

Jacques Delors, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, gagnrýndi í dag harðlega tregðu sumra evruríkja á borð við Þýskaland við það að stækka gríska björgunarpakkann og gefa í kjölfarið út evruskuldabréf til þess að auðvelda lántöku.

„Þetta er hneyksli. Þú getur ekki verið meðlimur í evrusamstarfinu og á sama tíma sagt nei við grundvallarkröfum um samstöðu við aðra meðlimi samstarfsins,“ sagði Delors í viðtali við sænska dagblaðið Dagens Nyheter og bætti við: „Við verðum að bjarga Grikklandi í sameiningu. Það sem við höfum gert hingað til er ekki nóg.“

Kröfur um viðbót við áformaðan seinni björgunarpakka Grikklands hafa aukist á síðustu misserum en á morgun verður haldinn fundur á þjóðarleiðtoga aðildarríkja ESB þar sem reynt verður að leggja lokahönd á samkomulag sem á að auka fjárhagsaga.

Nokkur aðildarríki, þar á meðal Þýskaland og Finnland, hafa hinsvegar opinberlega lýst yfir efasemdum um gagnsemi þess að dæla meira skattfé inn í Aþenu.

Delors segir það ekki koma til greina að vísa Grikklandi úr evrussamstarfinu og leggur áherslu á það að eina lausnin sé sú að Grikkir fari út í aukna einkavæðingu. „Evruríkin verða einnig í sameiningu að setja á markað evruskuldabréf ... ekki í þeim tilgangi að fjármagna núverandi skuldir heldur til þess að skapa aukna hagræðingu í fjármála- og peningakerfinu,“ sagði Delors.

Hann segir einnig að það hafi verið mistök af hálfu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að neita að taka þátt í slíkri skuldabréfaútgáfu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert