Lífið gengur ekki sinn vangagang í Belgíu í dag þar sem sólarhringsverkfall er hafið á landsvísu. Bæði opinberir starfsmenn og starfsmenn einkafyrirtækja hafa lagt niður störf til að mótmæla aðhaldsaðgerðum stjórnvalda, sem miða að því að minnka fjárlagahalla ríkissjóðs.
Lestarfarþegar eru á meðal þeirra fyrstu sem fundu fyrir aðgerðunum en lestarsamgöngur stöðvuðust í gærkvöldi.
„Ég er miður mín því enginn virðist ætla að taka ábyrgð á þessu. Þá er ég ekki frá þessu landi, þetta er mín fyrsta heimsókn og ég veit ekki hvert ég á að fara,“ segir ferðamaðurinn Al-Tuky Khan í samtali við Reuters.
„Mér finnst þetta vera sorglegt því við erum beðin um að nota almenningssamgöngur í síauknum mæli. Okkur er ráðlagt að nota ekki einkabílinn en þegar öllu er á botninn hvolft – enn einu sinni – þá erum við gíslar. Þetta er hneyksli,“ segir Jean-Paul Debelle.
Margir landsmenn eru ósáttir við þær breytingar stjórnvalda, m.a. lækkun atvinnuleysisbóta og skerðing á lífeyri.
Aðgerðir belgískra stjórnvalda miða að því að draga úr ríkisútgjöldum og skera niður kostnað, en þau hyggjast lækka ríkisútgjöldin sem nemur 12 milljörðum evra.
Á sama tíma og Belgar leggja niður störf þá funda leiðtogar Evrópusambandsins í Brussel um fjárlög ESB-ríkjanna og leiðir til að efla hagvöxt.