Lögleiðing fíkniefna eina leiðin fyrir Mexíkó

Mexíkóski rithöfundurinn Carlos Fuentes á Hay-bókmenntahátíðinni í Kólumbíu.
Mexíkóski rithöfundurinn Carlos Fuentes á Hay-bókmenntahátíðinni í Kólumbíu. Reuters

Eina leiðin til þess að binda enda á blóðbaðið sem staðið hefur yfir í tengslum við eiturlyfjagengi í Mexíkó undanfarin ár er að gera eiturlyf lögleg. Þetta segir Carlos Fuentes, einn virtasti rithöfundur Mexíkós.

Nærri því fimmtíu þúsund manns hafa fallið í ofbeldinu undanfarin fimm ár, þar á meðal glæpamenn, liðsmenn öryggissveita og saklausir borgarar.

„Fíkniefnasmyglararnir eru í Mexíkó, þeir senda dópið til Bandaríkjanna og þegar þau koma yfir landamærin, hvað gerist þá? Við vitum ekki hver neytir þeirra. Við getum ekki sótt neinn til saka, við getum ekki varist. Þetta er mjög erfið staða fyrir okkur Mexíkóa. Ríkisstjórnir Mexíkós og Bandaríkjanna verða að berjast gegn fíkniefnasmygli í sameiningu,“ sagði Fuentes á Hay-bókmenntahátíðinni í Cartagena í Kólumbíu. Breska blaðið The Telegraph segir frá þessu.

Hinn 83 ára gamli Fuentes telur því að eina leiðin til þess að sleppa undan ofbeldinu sé að lögleiða eiturlyfin.

„Þetta eru átök. Stundum vinnum við, stundum vinna þeir. En það eru 50 þúsund manns sem falla og aðstandendum þessa fólks er sama hver er að vinna. Við erum í mjög alvarlegri pólitískri stöðu og ég vona að í fyllingu tímans muni Mexíkó koma sér upp stefnu til þess að leysa vandamálið,“ segir rithöfundurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert