Rúmlega 70 málaliðar voru nýlega handteknir við landamæri Líberíu og Fílabeinsstrandarinnar, grunaðir um að ætla taka þátt í því að draga úr stöðugleika Fílabeinsstrandarinnar. Málaliðarnir voru handteknir í Líberíu.
„Stjórnvöld í Líberíu handtóku rúmlega 70 af þessum málaliðum hinn 28. janúar síðastliðinn, en fjöldi þeirra er ennþá í felum,“ sagði talsmaður stjórnvalda í Líberíu í samtali við AFP og bætti við „Þeir voru að ráða til sín og þjálfa skæruliða sem þeir ætluðu sér að beita gegn stjórnvöldum Fílabeinsstrandarinnar. Það er erfitt að fylgjast með málaliðunum vegna þess að þeir starfa og ferðast um í stórum og dimmum skógi.“
Að sögn talsmannsins voru málaliðarnir fyrrverandi hermenn sem eru hliðhollir Laurent Gbagbo, fyrrverandi forseta Fílabeinsstrandarinnar. Í för með þeim voru einnig skæruliðar frá Líberíu.
Mikil átök brutust út á Fílabeinsströndinni árið 2010 þegar að Gbagbo neitaði að láta af völdum þegar að ljóst var að hann hefði hlotið ósigur í forsetakosningum landsins. Gbagbo var handtekinn í apríl í fyrra og í kjölfarið var sigurvegari kosninganna, Alassane Ouattara, skipaður í forsetaembættið.
Rúmlega 70 málaliðar voru nýlega handteknir við landamæri Líberíu og Fílabeinsstrandarinna, grunaðir um að ætla taka þátt í því að draga úr stöðugleika Fílabeinsstrandarinnar.