Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hefur áhuga á því að mæta í viðtal hjá útlendri sjónvarpsstöð. Viðtalið yrði það fyrsta við Breivik frá því hann framdi ódæðisverkin í júlí.
Verjandi Breivik, Geir Lippestad, segir í samtali við norska dagblaðið Verdens Gang í dag að hann hafi ráðlagt Breivik að samþykkja engin viðtöl áður en réttarhöldin hefjast í apríl en Breivik hafi ítrekað sagst hafa áhuga á að fara í viðtal við útlenda sjónvarpsstöð.
Fjölmargir fjölmiðlar, bæði norskir og erlendir, hafa reynt að fá viðtal við Breivik í öryggisfangelsinu Ila þar sem hann er í haldi.
Breivik var úrskurðaður ósakhæfur í desember en réttarhöldin yfir honum hefjast 16. apríl nk.
Vibeke Hein Bæra, einn lögmanna Breivik, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að Breivik hafi ákveðnar fréttastofur í huga en það þýði hins vegar ekki að samkomulag hafi verið gert um viðtal. Frá því um miðjan desember hafa gestir fengið að heimsækja Breivik í fangelsið og hann að fylgjast með fjölmiðlum.
Breivik, sem segist vera í krossferð gegn fjölmenningu og innrás múslima í Evrópu, kom fyrir bílsprengju við opinberar byggingar í miðborg Óslóar 22. júlí í fyrra. Átta létust í tilræðinu. Hann fór þaðan til Úteyjar og klæddur í lögreglubúning skaut hann 69 til bana, aðallega unglinga sem voru þar í sumarbúðum á vegum ungliðahreyfingar jafnaðarmanna.