Kuldakastið sem hefur orðið 30 að bana í Úkraínu á síðustu fimm dögum hefur breitt úr sér um austur- og miðhluta Evrópu og hafa kuldamet m.a. verið slegin víða í Búlgaríu.
Flestir þeirra sem hafa látist í Úkraínu voru heimilislausir og urðu úti en fjórir fundust látnir á heimilum sínum. Þá hafa fleiri en 600 leitað sér læknisaðstoðar vegna frostbits og ofkælingar.
Yfirvöld þar í landi hafa opnað 1.590 skýli sem eiga að sjá heimilislausum fyrir hita og mat og hyggjast opna um 150 til viðbótar en hitastigið hefur farið niður fyrir -28 gráður á sumum svæðum.
Í Póllandi var tilkynnt um fimm dauðsföll vegna kulda í dag og er fjöldi þeirra sem hafa látist þar í landi í janúar er þá orðinn 27. Hitastigið þar fór niður fyrir -30 gráður í nótt.
Einn heimilislaus maður fannst látinn í Vilníus, höfuðborg Litháens, í dag, ein kona í höfuðborg Tékklands, Prag, og tveir í Rúmeníu.
Í Búlgaríu hafa kuldamet fallið víða en í 18 borgum og bæjum, þeirra á meðal höfuðborginni Sofíu, hefur hitastigið aldrei verið lægra 31. janúar og fór mest niður fyrir -29 gráður í Kneja.