Hvetur Öryggisráðið til að álykta um Sýrland

Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakklands.
Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakklands. Reuters

Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakklands, hvatti í dag Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna til þess að binda enda á „skammarlegt þagnarbindindi“ þess yfir blóðsúthellingum í Sýrlandi með því að samþykkja ályktun þar sem þess er krafist að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segi af sér embætti.

„Við erum hér saman komin í dag í þeim tilgangi að binda enda á skammarlegt þagnarbindindi Öryggisráðsins,“ sagði Juppi í ræðu sinni fyrir Öryggisráðinu í dag og bætti við „Við erum hér saman komin í dag til þess að Öryggisráðið geti sinnt skyldum sínum gagnvart þjóð sem þjáist.“

Að sögn Juppe myndi Arababandalagið sjá um að framfylgja friðaráætlun sem fjallað er um í ályktuninni en áætlunin kveður á um að Assad segi af sér og að í kjölfarið fari fram viðræður um pólitíska framtíð landsins. Marokkó, sem er meðlimur i Arababandalaginu, lagði fram ályktunina í Öryggisráðinu.

„Það er hlutverk Arababandalagsins að fylgja ályktuninni eftir,“ sagði Juppe og bætti við: „Okkur ber skylda til þess að hjálpa þeim með því að senda sýrlensku alræðisstjórninni skýr skilaboð um að alþjóðasamfélagið styðji aðgerðir Arababandalagsins.“

Hvorki Rússland né Kína styðja ályktunina en bæði ríkin beittu neitunarvaldi þegar að svipuð ályktun var lögð fyrir Öryggisráðið í október í fyrra. Ríkisstjórnir ríkjanna tveggja hafa gagnrýnt Vesturlönd fyrir hernaðaraðgerðir þeirra í Líbýu í fyrra.

„Sýrland er ekki Líbýa. Ekkert, og ég meina nákvæmlega ekkert, í þessari ályktun er hægt að túlka sem svo að hún heimili valdbeitingu,“ sagði Juppe í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert