Jörð er alhvít í höfuðborg Ítalíu, Róm, en það gerist afar sjaldan að snjór setjist í borginni. Víða er kalt á Ítalíu en frostið mældist 30 gráður í Piedmont-héraði í morgun.
Pálmatrén í Róm eru þakin snjó en það hefur ekki gerst í fimmtán ár að snjó taki ekki strax upp í borginni.
Flugferðum á milli Rómar og Mílanó hefur verið aflýst og allt situr fast í umferðinni um marga af helstu þjóðvegum landsins. Hefur innanríkisráðuneytið beðið fólk að forðast að leggja út í umferðina í hluta landsins þar sem snjóruðningstæki hafa ekki undan. Meðal annars sat langferðabifreið með 45 eldri borgara föst í þrjár klukkustundir í nágrenni Napólí í morgun og þurftu björgunarsveitir að koma fólkinu til hjálpar.
Þrír eru látnir úr ofkælingu á Ítalíu undanfarna daga en veðurspáin gerir ráð fyrir snjókomu og frosti á Ítalíu þar til á morgun.