Rússar höfnuðu í dag tillögu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að binda enda á blóðbaðið í Sýrlandi. Í dag létust 25 í óeirðum í landinu, en þar var þess minnst að 30 ár eru liðin frá miklu blóðbaði í borginni Homs, þar sem þúsundir létu lífið. Hermenn og öryggissveitir pynta börn í þeim tilgangi að brjóta niður baráttuvilja fólks.
Að minnsta kosti 6000 manns hafa látið lífið í óeirðum og mótmælum í landinu frá því í mars í fyrra. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja að börn niður í 13 ára aldur sæti pyntingum af hendi stjórnvalda. Það sé liður í að bæla niður uppreisnina.
Sum börnin hafa verið numin brott af heimilum sínum, önnur hafa verið tekin með valdi úr skólum sínum. Þeim er síðan haldið föngnum af hermönnum. Þar eru þau barin, þeim gefið raflost. Hermennirnir brenna þau með sígarettum og láta þau hanga í handjárnum klukkustundum saman, að sögn samtakanna.
Rússar hafa hafnað öllum tillögum sem Öryggisráðið hefur lagt fram. Þeir þvertóku fyrir að krefjast ætti afsagnar Bashar al-Assads, forseta landsins. Orðið var við þeirri kröfu, en Rússar segjast engu að síður geta fellt sig við innihald tillögunnar. Sterk tengsl eru á milli Sýrlands og Rússlands.
„Sumt af því sem við gerðum athugasemdir við hefur verið tekið út úr tillögunni, en það nægir ekki til þess að við getum samþykkt hana,“ segir Gennady Gatilov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands. Hann sagði að Rússar væru reiðubúnir til frekari viðræðna.
Hillary Clinton ræddi við Sergei Lavrov, hinn rússneska starfsbróður sinn, um málið og urðu þau ásátt um að viðræðum skyldi haldið áfram.